Saturday, September 16, 2006

Velkomin í heiminn Jódís Halla

Mig langar svo að vera í skóla að ég er að farast! Þetta er ömurlegt. Ef ég væri enn í þjóðfræði myndi ég núna vera að lesa mér til um Tolkien, ég væri sko ekki bara heima að gera ekki neitt eins og áður. Ég er sannfærð um að ég yrði betri námsmaður í þetta sinn!
Iss, en ég vil frekar eiga smá peninga, búinn að njóta þess að vera í vinnu með því að fara til New York og eignast ný föt, þarf bara að vinna aðeins lengur til að klára það og svo fer ég að safna fyrir næsta æði, mögulega ferð til Berlínar. Annars eru allir möguleikar opnir.

Ég ætti samt helst að vera að safna fyrir drauma-framhaldsnáminu mínu í Þjóðfræði, en það er e-ð svo fjarlægur draumur. Ég skelli mér bara í skuldir fyrir því, lánasjóður námsmanna hefur verið góður við mig í gegnum tíðina og heldur því vonandi áfram.

Áðan heyrði ég loks í Eydísi og fékk að heyra að hún er ástfangin af nýbakaðri dóttur sinni, Jódísi Höllu. Veit hún fyrirgefur mér það að skella nafninu á netið, henni finnst bara fyndið hversu spennt ég er yfir þessu öllu saman

Wednesday, September 13, 2006

Ferðalýsing

Blogg einu sinni í mánuði, er það ekki hæfilegur skammtur?

Það hafa nú engin stórtíðindi átt sér stað á þessum mánuði. Það sem stendur hvað hæst upp úr er að sjálfsögðu förin til Nýju Jórvíkur sem var frábær í alla staði. Borgin er ekki jafn ógurleg og af er látið og kom það mér sennilega mest á óvart hversu lítil Manhattan er í raun. Það er að segja, hún tekur ekki mikið "gólfpláss" en húsin eru stór í miðri Manhattan, svo minnka þau og verða eldri og krúttlegri eftir því sem maður fer sunnar á eynna.
Við Rut tókum algjörlega túristapakkann á þetta, fórum í Empire State bygginguna þar sem markverðasti hluturinn sem ég sá var lítil kona sem ég er sannfærð um að hafi verið/sé norn. Hún var með staf með geitarhöfði og ALLT!
Svo fórum við m.a. í Staten Island Ferry og sáum Frelsisstyttuna, sem er minni en ég hafði gert ráð fyrir, kíktum við á magnaða sýningu sem heitir Bodies (já svona er að ferðast með hjúkrunarnema), versluðm eins og brjálæðingar, kíktum í tour bus sem fór m.a. í kvöldferð til Brooklyn og fórum á Vaxmyndasafnið og pósuðum með Hulk (við eigum segul því til sönnunar).
Við reyndum líka að vera ó-túristalegar og gerðum það sem við teljum að heimamenn geri, kíktum í bíó og keyptum okkur þar risastórt gos (svo stórt að ég hélt með báðum höndum og kláraði engan veginn þrátt fyrir að vera mikill gossvelgur), borðuðum á Mcdonalds (hey við urðum að prófa allavega einu sinni) og kíktum á Rancid tónleika sem voru vægast sagt stórfenglegir!

Hahaha ef það er e-r enn að lesa fær sá hinn sami hrós!

Annars langar mig að óska Eydísi til hamingju en hún átti víst þessa líku myndarlegu stelpu í fyrrinótt (12. september, 14 merkur). Til hamingju Eydís og litla barn með hvor aðra.