Sunday, April 30, 2006

Satt?

Þessi stjörnuspá er nokkuð góð að mínu mati

Hrútur (20. mars - 20. apríl): Þú ert óþolinmóður og fljótfær egóisti, góður að lofa öllu fögru, en fljótur að gefast upp og láta aðra þrífa upp skítinn. Þú ert keppnismaður og sérlega klár í að keppa við ranga aðila og slá tilgangslaus högg útí loftið. Þú ert kvikindi, en það hjálpar hversu einlægur, barnalegur og einfaldur þú ert.

Naut (20. apríl - 21. maí): Þú ert latur og þrjóskur, enda löngu staðnaður og fastur í sama farinu. Peningar og þægindi eru það eina sem þú hugsar um, enda háður nautnum, mat, sykri og skynörvandi efnum. Þú hreyfist ekki úr stað og selur sannfæringu þína hæstbjóðenda. Þú ert lítið betri en stífluð rotþró.

Tvíburi (21. maí - 20. júní): Þú ert eirðarlaus og yfirborðslegur, alltaf á hlaupum frá einu tilgangslausu verkefni í annað, með hundrað ókláruð járn í eldinum. Þú ert sí ljúgandi, enda sérfræðingur í að gefa loforð sem þú getur ekki staðið við. Vissulega ertu vel gefinn, en þú sóar hæfileikum þínum í blaður og óþarfa.

Krabbi (21. júní - 23. júlí): Þú þykist vera töff, en ert í raun aumingi og tilfinningasósa, og getur ekki talað og tjáð þig, nema með því að væla og kvarta. Þú ert fastur í fortíðinni og munt því fyrr en síðar kafna í drasli og gömlum minningum. Þegar þú reiðist þá fer allt í einn graut og upp blossar grimmd og hefnigirni. En svona dags daglega þá ertu fúll, þunglyndur og sjálfsvorkunnsamur.

Ljón (22. júlí - 23. ágúst): Þú ert eigingjarn og of upptekinn af eigin málum til að hafa áhuga á öðrum. Þú veist allt og hlustar ekki eða öskrar á andmælendur þína. Þú ert svo barnalegur, einlægur og trúgjarn, að það er augljóst að þú hefur aldrei fullorðnast. Þú ert latur, en þegar þú gerir eitthvað, þá gengur þú of langt.

Meyja (23. ágúst - 23. september): Þú ert einn leiðinlegasti maður í heimi, alltaf að kvarta, gagnrýna og skipta þér af fólki, en segir aldrei neitt sem gagnast öðrum. Þú ert alltaf á hlaupum, þykist vera duglegur, en gerir aldrei neitt af viti, ekki frekar en stormur í tebolla. Þú ert stressuð taugahrúga.

Vog (23. september - 22. október): Þú þykist vera ljúfur og vingjarnlegur, en ert í raun falskur og eigingjarn, brosir framan í fólk, en lýgur og ferð bakvið aðra. Það tekur þig óratíma að taka ákvaðanir, en þegar það loksins gerist, ertu óhagganlegur, enda of latur til að hugsa málin aftur og of upptekinn af því að smjaðra fyrir öðrum.

Sporðdreki (23. október - 21. nóvember): Þú ert frekur og valdasjúkur, færð einstök mál á heilann (þráhyggja) og ert því einhæfur og hundleiðinlegur. Þú ert ímyndunarveikur og tortrygginn, móðgast útaf engu og gerir úlfalda úr mýflugu. Lífið er annað hvort frábært eða ómögulegt. Þú ert eins og biluð plata, stöðugt að spila sama lagið.

Bogmaður (22. nóvember - 21. desember): Þú ert týpan sem grautar í öllu, en kann ekkert, enda alltaf á hlaupum úr einu í annað. Þú átt erfitt með að þekkja takmörk þín, ert agalaus, flýrð óþægindi og veist ekki hvernig þú átt að nýta hæfileika þína. Ef þú nærð tökum á einhverju, þá hleypur þú í verkefni sem þú ræður ekki við.

Steingeit (21. desember - 20. janúar): Þú ert stífur og vansæll vinnualki, fastur í tilgangslausum siðum og reglum, alltaf að skipta þér af öðrum og segja þeim að gera það sem þú getur ekki gert sjálfur. Þú ert snobbaður og þráir stöðutákn, enda með minnimáttarkennd sem þú heldur að hægt sé að breiða yfir með titlum og merkjavöru.

Vatnsberi (20. janúar - 19. febrúar): Þú ert sérvitur og skrýtinn, og alltaf svo langt á undan samtímanum að enginn skilur þig eða getur notað hugmyndir þínar. Vissulega ertu svalur, en þú ert svo sjálfstæður, ópersónulegur og hræddur við raunverulegan innileika, að þú ert í raun alltaf einn, frosinn í einskis manns landi. Týndur á skýi í háloftunum.

Fiskur (19. febrúar - 20. mars): Þú ert rugluð og týnd sál og hefur ekki hugmynd um hvernig þú átt að nýta hæfileika þína eða í hvaða átt þú átt að fara. Þú vilt vera alls staðar og upplifa allt. En þar sem þetta er ómögulegt, þá fer allt í vitleysu. En það gerir ekkert til, þú ert sérfræðingur í sjálfsblekkingum og því að flýja raunveruleikann.

Jó jó

Í gærkvöldi fór ég í ótrúlega sniðugt teiti. Þetta var hip hop partý á Njálsgötunni og ég skemmti mér alveg frábærlega. Reyndar fannst mér pínu leiðinlegt að ég skyldi ekki fatta að þegar Eva sagði að þetta væri hip hop partý, þá meinti hún það í alvöru.
Það var dj á staðnum sem spilaði fullt af rappi og hip hoppi, ég held ég hafi þekkt allt að 4 lög. Svona er ég með fjölbreyttan tónlistarsmekk! Svo var nú aðal skemmtunin að sjá alla útúrblingaða á því.
Stjáni var eins og ég sagði honum allavega tvisvar ótrúlega flottur, með buxurnar á hælunum og húfuna fyrir augunum. Svo sló Ingvar í gegn líka í körfuboltatreyju merktri sér og með e-ð skrifað á hnúana, ég nennti aldrei að sjá hvað það var.
Guðný var með blingið á hreinu og Eva engu síðri. Viktor sýndi smá viðleitni en fann ekki rapparann í sér.

Mest allt kvöldið reyndi ég að læra að gera East Coast og West Coast merki, en ég hef bara ekki fingraburðinn í slíkt. Ég er t.d ekki ein af þeim sem get gert star treck dæmið með puttana (held það sé örugglega star treck), þar sem puttarnir eru í sundur í miðjunni en saman tveir og tveir!

Mig langar í köku í dag, svona alvöru rjómatertu sull eins og maður fékk alltaf í "denn"

Saturday, April 29, 2006

12:04

Var að koma úr prófi, gekk bara sæmilega að ég held. Komst að því að ég var ekki sú eina sem hafði ekki hugmynd um hvernig kynjaskipting rýmis var í grein Berbers. Samt var ég búin að lesa þessa grein. Nú er ég svo löt að ég nenni ekki einu sinni að kíkja í greinina að skoða þetta. Þetta voru líka bara 5%

Ég talaði hinsvegar heil ósköp um menningararf í tengslum við opinber söfn. Vona að svarið hafi verið jafn gott og mér sjálfri fannst.

Annars var þetta bara eins skemmtilegt og próf geta orðið. Prófdómarinn var allavega hrein snilld. Ég átti oft erfitt með að skella ekki upp úr. Eftir prófið sagði María mér einmitt að hún hefði því miður litið á mig þegar hún var að reyna að komast hjá því að hlæja og ég aðstoðaði víst ekki mikið.
Sem dæmi um skemmtileg heitin vil ég byrja að nefna að hann talaði með hreim. Það er ekki fyndið eitt og sér, en hann var að hhhhvaarta svo mikið í okkur að það varð gaman. Svo rak hann Bjarna út með vatnsglasið sitt, það má sko ekki vera með opin ílát inni.
Svo þegar hann var búin að kvarta (hhhvarta) nógu mikið sagði hann að nú mættum við hefja prófið og þar sem hann hefði tekið af okkur 4 mín fengum við að vera í prófinu til 12:04. Mjög sanngjarn maður þrátt fyrir ýmsa vankanta.
Í miðju prófi fór hann svo að laga til borðfætur hér og þar um stofuna. Ég var ein þeirra heppnu.

Sem betur fer var ég samt með eyrnatappa (ath, einn eyrnatappa) þegar hann var að japla á eplinu sínu. Hverjum dettur í hug að koma með epli í próf??

Wednesday, April 26, 2006

húrra! húrra! húrra!

Hún Lea fagnar í dag 17 ára afmælisdegi og vil ég óska henni til hamingju með það.

Engar áhyggjur, hún er ekki komin með bílpróf

Tuesday, April 25, 2006

Google-Birna

Það hefur þótt góð skemmtun að prófa að "gúgla" ýmsa hluti og datt mér í hug að deila afrakstri þeirrar tímaeyðslu með ykkur
Fyrst prófaði ég að slá inn Birna Rún, fátt varð um myndir þar, aðeins þrjár, tvær af nöfnu minni og svo þessi:


Ég afréð því að notast einungis við Birna og voru flestar myndirnar af þessari skvísu
Ég vandaði mig að velja klisjulegustu myndinar með kórónu:

og með sprota eins og sannri fegurðardís sæmir:


Svo komu margar fleiri skemmtilegar
Þetta er til dæmis Birna af Orkney (ég vissi ekki af henni, þarf að kynna mér það betur):

Þessa hljómsveit þarf ég líka að kynna mér betur:

Svo kom að sjálfsögðu ein alveg lýsandi fyrir mig eins og við mátti búast: Vonandi eruð þið ekki í hægum tölvum:)

Monday, April 24, 2006

Ekkert mál-fyrir Jón Pál

Í fyrrakvöld náði ég að framkvæma hlut sem mig hefur aðeins dreymt um hingað til. ég kláraði ritgerð meira en 24 klst áður en ég átti að skila henni. Skipulag hefur aldrei verið minn sterkasti kostur, en nú er ég sko skipulögð. Eða svo gott sem, veit allavega hvað ég vil vera að gera hverju sinni.
Svo fer ég bara að blogga.

Annars voru nokkrir hápunktar á helginni og þeir innihéldu allir fólk. Eydís fær þó hápunkt hápunkt helgarinnar því það var svo langt síðan ég hitti hana e-ð af viti. Reyndar held ég að ég hafi komið inn hjá henni einhverjum taugastrekkingi með tali um kynjamun og útihátíðir en hún er með sterk bein og ætti að jafna sig.

Annars er ég að hlusta á X fm og það er verið að taka viðtal við Hjalta Úrsus um gerð myndar um Jón Pál- held þetta hljóti að vera endurspilun, hef allavega heyrt brot úr viðtali við hann áður.
Eníhú, mynd um Jón Pál kraftlyftingamann og skemmtikraft með meiru, ég skal horfa á hana. Enda muna glöggir menn eftir fölskvalausri aðdáun minni á þeim mæta manni.

Thursday, April 20, 2006

Nú er í alvörunni sumar, gleðjist osfrv


gleðilegt sumar
ég hef ekki farið í skólann síðan 6. apríl. Engu að síður er ég að sinna honum. Ekki af krafti, en þó eitthvað.
Ég hef hinsvegar verið óvenju dugleg við að leggja kapal og horfa á sjónvarpið. Svo var ég að vinna í gær og hinn. Sakna þess ekkert sérstaklega, en samt gaman að vita að ég fæ nokkra þúsundkalla í viðbót um mánaðarmótin (reyndar fæ ég þessa ekki fyrr en í júní!, heimsku launatímabil)

Nú þarf ég að skrifa um barnamyndir, hver er annars ykkar uppáhalds íslenska barnamynd?
ég dýrkaði alltaf Jón Odd og Jón Bjarna, en ég fór að gráta yfir Benjamín Dúfu svo ég veit ekki...
Svo hélt ég alltaf að punktur punktur komma strik væri barnamynd, en svo er víst ekki! Mér fannst hún allavega vera mjög skemmtileg líka.

Tuesday, April 11, 2006

Páskar 2006

Já það er að koma að páskum og þar sem ég hef ekkert að segja ætla ég að setja inn nokkrar fallegar páskamyndir.

Vonandi verða mínir páskar jafn hressir og hjá þessum fír


Nammi namm, súkkulaði sem talar


Og ein svona í anda hátíðarinnar


Að lokum er það þessi sem kemur páskunum ekkert við (þetta er hreyfimynd og ég veit ekki hvort hún eigi eftir að hreyfast hjá mér en mér er eiginlega alveg sama)

Sunday, April 09, 2006

Eins dauði er annars brauð

Helgin var ágæt- ekki eins og best heldur eins og volg.
Ég er ekki andlega tilbúin fyrir svona mikinn hasar í einu, þegar mest var voru 17 manns í bústaðnum og yfirleitt allir að tala í einu.
En þetta var gaman og ég fór meðal annars í göngutúr um svæðið ásamt múttu.
Okkur tókst að finna ótrúlega spennandi kirkjugarð (reyndar var hann mjög áberandi og við þjóðveginn, en við fundum hann!)- ef ég fer einhvern tímann í framhaldsnám ætla eg að skrifa um legsteina. Mér er alveg sama þó það hafi þegar verið gert af öðrum.
Nú er ég hins vegar að vinna í því að ljúka þessari önn. Mig langar mikið frekar að sofa bara eða drekka mix.

Wednesday, April 05, 2006

nú er sumar gleðjist gumar...

Mig langar í páskaegg en hef ekki fjárráð til að eyða peningum í slíkt.
Öll framlög vel þegin (líka svona pínulítil egg!)

Vissuð þið að fuglar rata eftir pólstjörnunni?

Monday, April 03, 2006

Tækni smækni



Minn sími er ekki svona flottur, en einn daginn...